Sumarlestur 2020

Þetta sumarið bjóðum við upp á Ævintýralestrarlandakort fyrir yngri nemendur og Lestrarlandakort fyrir eldri nemendur! Tilgangur landakortanna er bæði að hvetja nemendur til lestrar og að kynna mismunandi tegundir bóka fyrir börnum og ungmennum. Með þessu móti verður leit að lesefni sem höfðar til hvers og eins auðveldari og líklegra að áhugi á lestri kveikni eða aukist. Á kortunum má finna mismunandi litaða vegi sem hver um sig táknar ákveðna tegund bóka: ljóð, fantasíur, spennusögur, húmor, teiknimyndasögur, fræðibækur, raunsæjar skáldsögur og leikrit. Þar er jafnframt að finna bókalista fyrir hverja tegund bóka, sem hugsaður er sem hugmyndabanki sem hægt er að leita í. Við hvetjum nemendur til að kanna sem flesta vegi í sumar og kynnast þannig fjölbreyttu lesefni. Á bakhlið landakortsins er hægt að skrifa niður þær bækur sem lesnar eru, taka mynd í lok sumars og senda á netfangið [email protected] Ekki er þörf á að fylla út allar línur! Þeir sem senda inn mynd komast í pott og eiga möguleika á að verða dregnir út og fá bókagjöf að launum frá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Lestrarlandakortunum verður dreift á almenningsbókasöfn en jafnframt er krækja á þau hér að neðan og þið getið prentað út eintök fyrir ykkar nemendur. Gert er ráð fyrir að kortin séu prentuð á A3 stærð af pappír og að raunstærð (actual size) sé valin. Hins vegar er alveg mögulegt að prenta þau út á A4 stærð (fit to paper). Sumarlesturinn 2020 er í samstarfi við Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna, Félag fagfólks á skólasöfnum, Félag íslenskra bókaútgefenda, Heimili og skóla og RÚV.

Lestrarlandakort