Ritun

Megintilgangur ritunar er að miðla efni til annarra, halda utan um og móta eigin hugsun. Þessi megintilgangur ætti að vera útgangspunktur kennslunnar. Nemendur þurfa að fá ritunarverkefni sem hafa augljósan tilgang. Einnig þarf að kenna þeim að nýta þá tækni og miðla sem eru aðgengilegir í dag til að vinna og birta textana sína. Þótt tæknileg færni eins og skrift, innsláttur á lyklaborð og stafsetning sé ein af undirstöðum textaritunar má áherslan á þann þátt ekki yfirtaka alla ritunarkennslu. Gott getur verið að leggja ákveðin atriði inn sérstaklega, svo sem hvernig dregið er til stafs og helstu stafsetningarreglur en þessi færni æfist líka í allri textavinnu. Meginhluti kennslutímans í ritun ætti því að fara í það að rita texta fremur en að þjálfa áðurnefnda færni án samhengis við samfelldan texta.