K-PALS og G-PALS

K-PALS var þróað fyrir börn á síðasta ári í leikskóla en hefur einnig gefist vel í lestrarkennslu í 1. bekk, til dæmis samhliða hefðbundinni stafainnlögn. Markmiðið með aðferðinni er að gefa kennurum kost á að þjálfa samtímis hóp af börnum í stafaþekkingu og lestri. G-PALS aðferðin var þróuð fyrir nemendur í 1. bekk en hentar þó mun breiðari nemendahópi og getur nýst á öllum stigum grunnskólans, til dæmis í sérkennslu og kennslu í íslensku sem annað tungumál. PALS er svo ætlað nemendum í 2.-6. bekk sem eru búnir að ná tökum á undirstöðuatriðum lestrar og þurfa að þjálfa lesfimi og efla lesskilning sinn. Þá aðferð má finna undir lesfimihluta Læsisvefsins. Í öllum útfærslum er jafningjamiðaðri nálgun beitt. Það er SÍSL – sérfræðingateymi í samfélagi sem lærir sem á veg og vanda að útgáfu PALS á Íslandi en aðferðirnar hafa þegar reynst notadrjúgt verkfæri í verkfærakistu kennara.