Orðaforði og lesskilningur

Læsi í hefðbundnum skilningi byggir á tveimur höfuðþáttum en þeir eru færnin til að umbreyta ritmálinu í merkingarbær orð með umskráningu og að skilja orðin sem textinn eða ritmálið inniheldur. Allur skilningur byggir á stærð orðaforða lesarans sem verður til í gegnum samskipti, nám og reynslu. Þeir lesarar, sem hafa góðan orðaforða, hafa mikið forskot í námi á þá sem hafa hann ekki. Lesskilningsaðferðir eru kenndar til hjálpa nemendum í glímu sinni við texta og byggja þær á rannsóknum á því hvernig góðir lesarar nálgast og vinna með texta. Aðferðirnar geta reynst ákaflega gagnlegar en mikilvægt er að þær séu kenndar í samhengi og í beinni glímu við texta sem nemandinn þarf að tileinka sér. Þannig verður kennslan merkingarbær og aðferðin ekki kennd hennar sjálfrar vegna.