Matsrammi fyrir lesfimi

Menntamálastofnun hefur nú gefið út nýjan matsramma fyrir lesfimi og kemur hann í staðinn fyrir matsramma fyrir lestrarlag. Nýi ramminn er frábrugðinn þeim eldri að því leytinu til að nú er frammistaða nemenda varðandi sjálfvirkni og nákvæmni í raddlestri (eða lesin orð á mínútu) felld með skýrari hætti inn í nýja rammann. Þannig eru þessir tveir þættir settir í samhengi við aðra þætti lesfiminnar og lögð áhersla á að kennsla og þjálfun þurfi að taka mið af öllum þáttum hennar. Þetta er mjög jákvæð breyting þar sem þessi framsetning hvetur til meiri fjölbreytni í lestrarkennslu og þjálfun þar sem sjónum er beint að fleiri þáttum lesfiminnar en einungis leshraðanum enda skipta þeir einnig máli fyrir almenna lestrarfærni nemanda.