Yfirlit yfir efni vefsins
Læsisvefurinn er verkfærakista kennara. Kistan er full af kennsluaðferðum, kennsluhugmyndum og fræðsluefni tengdu læsi sem kennarar geta nýtt sér í kennslu, við gerð kennsluáætlana, til að bregðast við niðurstöðum námsmats eða halda fræðslu fyrir foreldra. Faggreinakennarar geta t.a.m. fundið aðferðir sem efla lesskilning í námsgreinum og skólasafnskennarar geta fundið hugmyndir til að efla lestarmenningu í sínum skóla. Eins geta kennarar nýtt sér vefinn til starfsþróunar og skólar við gerð eða endurskoðun læsisstefnu sinnar.
Vefnum er skipt í fimm flokka sem byggja á grunnþáttum læsis og auðveldar þannig kennurum að finna verkfæri og bjargir sem henta hverjum nemanda eða nemendahópi. Flokkarnir eru fimm og er gerð grein fyrir því hvaða grunnþátt læsis er verið að þjálfa, hvaða kennarar geta nýtt sér efnið og hvað efnið heitir:
Undir þessum hluta Læsisvefsins má finna ýmislegt um undirstöðuþætti læsis svo sem málþroska og hljóðkerfisvitund en einnig ýmislegt sem varðar kennslu og þjálfun lestrar á fyrstu stigum lestrarnáms. Efnið er einkar gagnlegt fyrir þá sem kenna byrjendum í lestri en hentar einnig þeim sem vilja öðlast góðan skilning á því hvað lestur er.
Góð þekking kennara á undirstöðuþáttum læsis og góð þekking á fjölbreyttum aðferðum er forsenda þess að honum takist vel upp í kennslu sinni. Við bendum kennurum sérstaklega á umfjöllunina um DRIVE líkanið sem veitir aðgengilega sýn á margslungið eðli lestrar með samanburði á akstri og lestri! Gott er að byrja á því að skoða myndina aftast í greininni.
Lesfimi er færni sem birtist í nákvæmum, sjálfvirkum og fyrirhafnarlausum lestri sem lesinn er í viðeigandi hendingum og með réttu hljómfalli. Allir þessir þættir stuðla að auknum lesskilningi. Í lestrarkennslu nægir ekki að leggja áherslu á sjálfvirkni lestrar eða hraðann heldur þarf að hjálpa nemendum að átta sig á tilgangi lestrar sem er fyrst og fremst sköpun merkingar. Það er gert með því að kenna nemendum að beita aðferðum sem hjálpa þeim í glíma við nýjan orðaforða og innihald texta allt frá upphafi lestarnáms.
Að nota Matsramma fyrir lesfimi er mjög góð leið til að vinna með lestur og lestrarþjálfun á fjölbreyttan hátt. Með því að leggja ríka áherslu á tjáningu og hrynræna þætti lestrar beinir kennarinn sjónum nemenda að merkingarþætti textans og fær nemandann til að hugsa um tilgang og inntak textans. Matsrammanum fylgir handbók sem skýrir vel notkun hans í kennslu og þjálfun.
Málskilningur og færni í umskráningu eru þeir tveir þættir sem hafa mestu áhrifin á getu lesara til að skilja texta. Af þessu leiðir að góð lesfimi og góður málskilningur eru forsendur góðs lesskilnings.
Fjölmargir aðrir þættir hafa áhrif á lesskilning og má þar nefna stýrifærni lesara (vinnsluminni, sjálfsstjórn, tilfinningastjórn og skipulagsfærni), bakgrunnsþekking á viðfangsefni texta, framsetning á texta (t.d. málfar og uppsetning) og þekking lesara á ólíkum tegundum texta.
Rannsóknir á lesskilningi og lesskilningskennslu benda á nokkra þætti sem kennarar ættu að hafa í huga við skipulag lestrarkennslu. Til að mynda ætti að samþætta lestrar- og ritunarkennslu, fylgjast með og meta námsframvindu nemenda og aðlaga kennslu í samræmi við hana. Þá þarf að kenna nemendum að beita lesskilningsaðferðum og fræða þá um uppbyggingu ólíkra textategunda. Byggja þarf upp fag- og bakgrunnsþekkingu hjá nemendum, þekkingu á tungumálinu og orðaforða. Síðast en ekki síst þarf að bjóða upp á gott úrval lesefnis, skapa góðar aðstæður til lestrar og skapa tækifæri til samræðna um lesefnið eða ákveðin viðfangsefni.
Texti er skrifaður í margvíslegum tilgangi, s.s. til að skemmta, upplýsa og sannfæra og því er talað um ólíkar textategundir. Hver textategund hefur sín einkenni varðandi uppbyggingu, málsnið og orðnotkun og mikilvægt er að gera nemendum grein fyrir þessu ólíka formi og gefa þeim mörg tækifæri til að þjálfast í ritun hverrar þeirra.
Óháð textategund þarf líka að kenna uppbyggingu setninga, málsgreina og efnisgreina. Nemendur þurfa jafnframt að fá markvissa og góða kennslu og þjálfun í tæknilegum þáttum ritunar s.s. skrift, notkun lyklaborðs og stafsetningu.
Megintilgangur ritunar er að miðla efni til annarra, að halda utan um og móta eigin hugsun. Þessi megintilgangur ætti að vera útgangspunktur kennslunnar og þurfa nemendur að fá ritunarverkefni sem hafa augljósan tilgang í huga þeirra.
Ritunarkennsla og þjálfun í ritun krefst tíma, einbeitingar og skipulags og eitt af því sem huga þarf að í ritunarkennslu er að kenna nemendum að undirbúa og skipuleggja ritun sína sem og að endurskoða og endurbæta eigin texta eftir að vera búin að skrifa fyrstu drög. Ferlisritun í ritunarhluta Læsisvefsins er kennsluskipulag sem tekur á þessum þáttum.
Lestrarmenning skóla og samfélags byggir á byggir á gildum og viðhorfum til tungumálsins og læsis og hjálpar nemandanum að skilja hvers vegna gott læsi er mikilvægt. Góð lestrarmenning stuðlar að og ýtir undir áhuga á lestri og eykur líkur á því að nemendur læri að lesa sér til yndis.
Yndislestur hefur jákvæð áhrif á lestrar- og ritunarfærni, lesskilning og orðaforða og skilning á mál- og setningafræði. Þeir sem lesa mikið hafa einnig umfangsmeiri almenna þekkingu, oft betri skilning á mannlegu eðli og eiga auðveldara með að setja sig í spor annarra. Síðast en ekki síst eiga þessir nemendur jákvæðari samskipti og tengsl við fjölskyldu og sýna síður áhættuhegðun.
Þegar nemendur hafa náð góðum tökum á lesfiminni þarf að færa áherslur í heimalestri að þáttum sem geta stuðlað að aukinni lestraránægju og t.d. því að nemendur kynnist fjölbreyttari textategundum í gegnum lestur. Þar geta lestrardagbækur, bókarýni og áskoranir komið að gagni en á Læsivefnum má finna útfærslur á þessum aðferðum.
Lestrarmenningin nær líka til þáttöku foreldra í lestrarnámi barna þeirra en á Læsisvefnum má finna efnið Samvinna um læsi. Þetta efni er ætlað skólum sem vilja styrkja foreldra í hlutverki sínu sem lestrar- og læsisuppalendur og gera þeim kleift að efla börn sín í læsisnámi þeirra.