Samvinna um læsi

Sumir skólar hafa farið þá leið að boða foreldra á stutt námskeið við upphaf grunnskólagöngu þar sem farið er yfir væntingar skóla til samstarfsins, foreldrum veittar upplýsingar sem styrkja þá í hlutverki sínu og þeim gefið tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Þetta skiptir verulegu máli þar sem foreldrar hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að lestrarþjálfun á fyrstu stigum lestrarnáms, ekki síður en almennu læsisuppeldi barna sinna.

Menntamálastofnun hefur látið útbúa handbækur undir yfirskriftinni Samvinna um læsi sem skólar geta haft til hliðsjónar við gerð foreldrafræðslu sinnar. Efni handbókanna snýr annars vegar að lestri og lestrarnámi barna í 1. bekk og hins vegar að notkun gagnvirks lestrar í heimalestrarþjálfun fyrir nemendur sem eru komnir nokkuð vel af stað í lestri. Foreldrafræðsla af þessu tagi hefur gefist mjög vel og eru skólar hvattir til að leggja grunninn að þessu mikilvæga samstarfi með því að halda námskeið af þessu tagi.

Kynning

Samvinna um læsi: Lestur og lestrarnám barna í 1. bekk

Samvinna um læsi: Gagnvirkur lestur og umræður