Yndislestur
Hægt er að telja til margs konar ávinning af miklum lestri en þeir sem lesa sér til yndis öðlast forskot á mörgum sviðum. Yndislestur hefur meðal annars jákvæð áhrif á lestrar- og ritunarfærni, lesskilning og orðaforða og skilning á mál- og setningafræði. Þeir sem lesa mikið hafa einnig umfangsmeiri almenna þekkingu, betri skilning á mannlegu eðli og eiga auðveldara með að setja sig í spor annarra. Síðast en ekki síst eiga þessir nemendur jákvæðari samskipti og tengsl við fjölskyldu og sýna síður áhættuhegðun. Yndislestur er sá lestur sem lesari stundar að eigin frumkvæði og á eigin forsendum.