Verkfæri ritunar
Við skipulag Læsisvefsins var ákveðið að stafsetning og málfræði, ásamt skrift og þjálfun á lyklaborð, yrðu sett undir verkfæri ritunar en ekki höfð sem sérstakir kaflar innan vefsins. Þetta er gert til að undirstrika það að þessi atriði eiga fyrst og fremst að þjóna skriflegri tjáningu eða ritun. Þessi viðfangsefni íslenskukennslunnar skipta vissulega máli en sjálfsagt er að setja spurningarmerki við það hvort kennsla í stafsetningu og málfræði sé skilvirkust þegar hún er kennd í tómarúmi og án tengsla við texta sem er merkingabær í augum nemenda.